Ýmislegt um Rafhjól – Viðhald, Þvott og Flutning 🚴‍♂️⚡

Hér eru nokkrir gagnlegir punktar um viðhald, þrif og flutning rafhjóla. Markmiðið er að veita einfaldar og hagnýtar upplýsingar til að hjálpa þér að halda rafhjólinu í toppstandi og lengja líftíma þess.

ATH!! 📢 Þetta er alls ekki tæmandi listi – bara nokkrar ábendingar sem mér datt í hug. Ef þú vilt sjá fleiri upplýsingar eða hefur hugmyndir um efni sem ætti að vera hér, þá endilega sendu mér póst!

Við viljum gera þessa síðu að gagnlegum upplýsingabanka fyrir alla sem hjóla á rafhjólum á Íslandi. 🚵‍♀️

Keðjan

Fyrst er mikilvægt að leggja áherslu á að fylgjast vel með keðjunni á rafmagnshjólinu. Það er mjög mikilvægt að halda keðjunni hreinni og vera duglegur/dugleg við að smyrja hana reglulega til að tryggja góða virkni og lengri líftíma. Einnig þarf að fylgjast vel með slitinu á keðjunni. Það er ráðlagt að skipta um keðjuna á u.þ.b. 500 km fresti ef hjólið er mikið notað. Ég sjálfur skipti um keðjuna á mínu hjóli eftir 700 km, en það fer eftir hversu mikið hjólið er notað og hvernig viðhald er framkvæmt. Það er mikilvægt að huga að þessu til að forðast óþarfa skemmdir og tryggja áreiðanlega notkun.

Demparar

Fyrir þau sem eru með "full suspension" rafmagnshjól er mikilvægt að stilla dempara eftir eigin þyngd og akstursstíl. Rétt stilling á dempurum getur verulega bætt bæði akstursupplifun og öryggi. Til að fá sem besta frammistöðu er mikilvægt að stilla t.d. SAG (stökkspennu) og viðeigandi þrýsting, sem fer eftir líkamsþyngd og hvernig hjólið er notað. Hér er myndband sem útskýrir hvernig á að stilla þessi atriði og aðra mikilvæga þætti sem hafa áhrif á dempunina, svo þú getur nýtt hjólið þitt sem best.

Bremsur

Næst kemur viðhald á bremsum. Rafmagnshjól eru oft þyngri en venjuleg hjól vegna aukins vélarbúnaðar og rafgeymis, sem gerir það að verkum að bremsur slitna hraðar. Mikilvægt er að fylgjast reglulega með sliti á bremsuklossum og skipta þeim út áður en þeir verða of slitnir. Ófullnægjandi bremsur geta haft áhrif á öryggi og hjólaupplifun, svo það er mikilvægt að tryggja að bremsuklossarnir séu í góðu ástandi og séu reglulega skoðaðir. Ef þú ert í vafa um hvenær á að skipta þeim út, er gott að skoða hvort það sé merkjanlegt slit eða hvort bremsurnar nái ekki að beita fullum krafti þegar þær eru notaðar.

Þvottur

Best er að þvo rafhjólið eftir hvern hjólatúr þegar farið er af malbikinu eða á ósléttu undirlagi. Ef hjólið er orðið mjög skítugt er gott að þrífa það almennilega, en ef það er aðeins óhreint, getur verið nóg að skola það létt. Ég persónulega nota ekki háþrýstiþvott til að þvo hjólið, heldur nota ég slöngu og fiberklút til að þurrka það. Háþrýstiþvottur getur verið of harður fyrir rafhlöðuna, rafkerfið eða aðra viðkvæma hluti á hjólinu, svo ég forðast hann. Það eru þó mismunandi skoðanir á þessu, og sumir nota háþrýstiþvott án vandamála, en það fer eftir því hvaða viðhald þú vilt hafa á hjólinu. Best er að velja það sem þú treystir og hefur reynslu af, en alltaf er mikilvægt að passa að vatn komist ekki inn í rafkerfið eða aðra viðkvæma hluti.

Dekkin

Mörg rafhjól koma tubeless ready, sem þýðir að hægt er að nota þau án slöngu í dekkjunum. Þetta gerir kleift að hjóla með lægri loftþrýsting, sem eykur grip og þægindi, án þess að hætta sé á því að sprengja slöngu. Hins vegar þarf að undirbúa dekkið áður en þetta er hægt, þar sem felgur og dekk þurfa að vera almennilega innsigluð með sérstökum þéttivökva (sealant). Ég læt fylgja með myndband með leiðbeiningum um hvernig þetta er gert.

Eftir nokkrar ferðir um hraunið fyrir ofan Hafnarfjörð tók ég eftir að afturdekkið hafði skemmst illa, með skurði á hliðunum á tveimur stöðum. Til að auka endingu og vernd ákvað ég að fá mér ný dekk með sérstyrktum hliðum, sem eru betur búin til að standast gróft undirlag. Það reyndist þó frekar erfitt að koma þessum dekkjum á hjólið, þar sem styrkingin gerir þau stífari og erfiðari í uppsetningu. Til að auðvelda ferlið læt ég hér fylgja tvö myndbönd sem sýna bestu aðferðirnar til að setja svona styrkt dekk undir hjól.

Hnakkur

Ef hjólið er með dropper post (lækkandi sætipinna) ætti alltaf að geyma það með dropperinn í efstu stöðu. Ef hann er geymdur niðri í lengri tíma getur það valdið auknu slit á innri þéttingum og minnkað endingartíma hans. Þetta hjálpar einnig til við að viðhalda eðlilegri virkni og lengja líftíma búnaðarins.

Rafhlaða

Ef geyma á rafhjólið í lengri tíma án notkunar er best að halda hleðslustöðu rafhlöðunnar á bilinu 30%–60%. Þetta hjálpar til við að lengja líftíma rafhlöðunnar og viðhalda afköstum hennar. Á veturna er mikilvægt að hlaða rafhlöðuna rétt. Best er að leyfa henni að hitna aðeins eftir hjólaferð áður en hún er sett í hleðslu, þar sem það fer illa með rafhlöðuna að hlaða hana þegar hún er mjög köld. Þetta getur dregið úr endingu hennar og haft neikvæð áhrif á afkastagetu til lengri tíma.

Festingar á bíl

Aðeins flóknara er að velja sér festingar á bílinn fyrir rafhjól en venjuleg hjól. Rafhjólin eru þyngri og ekki er eins mikið úrval af festingum í boði. Hér eru nokkrar leiðir sem ég rakst á þegar ég skoðaði þetta.

1. Festingar á krók fyrir 2-3 hjól, þetta er einfaldasta leiðin og er hægt að festa hjólin á þetta án þess að taka framhjól af hjólinu. Þessar festingar fást hjá Poulsen.

Festing fyrir rafhjól

2. Festingar á þak eða pall á bíl. Þessar festingar fást t.d. hjá Jeppó.

Festing fyrir rafhjól

3. Festingar á pall á bíl sem prófílstál framleiða. Notaðir eru svo strappar eins og krossarar eru oft festir með, keypti svo gúmmí strappa í bílanaust til að halda afturhjóli niðri.

Festing fyrir rafhjólFesting fyrir rafhjólFesting fyrir rafhjól

4. Dropracks frá Tarandus.

Dropracks festing fyrir rafhjól