Tjaldsvæði

Rafhjólaferðir og útilegur fara saman sem salt og pipar! Hér finnur þú bestu tjaldsvæðin á Íslandi sem henta vel fyrir rafhjólaferðir. Þessi svæði eru valin með það í huga að þau séu aðgengileg með rafhjóli, bjóði upp á góða þjónustu og séu á stöðum þar sem fallegar hjólaleiðir eru í nágrenninu.

Rafmagnshjólin gefa þér frelsi til að ferðast á þínum hraða og njóta náttúrunnar til fullnustu. Flest tjaldsvæði bjóða upp á rafmagn til að hlaða hjólið þitt og aðra nauðsynlega þjónustu. Hvort sem þú ert að skipuleggja helgarferð eða lengri ævintýri um landið, þá eru þessi tjaldsvæði frábær útgangspunktur fyrir þínar rafhjólaferðir.

ATH þetta eru aðeins örfá dæmi um góð tjaldsvæði sem gaman er að hjóla frá. Ef þú átt uppáhalds tjaldsvæði til að fara með hjólið eða veist um góð tjaldsvæði með skemmtilegum hjólaleiðum í nágrenninu endilega sendu mér póst.

Góð tjaldsvæði fyrir rafhjólaferðir

Hveragerði - Reykjamörk

Tjaldsvæðið er í hjarta bæjarins í gróðursælu umhverfi þaðan sem stutt er í alla þjónustu svo sem sundlaug, leikvelli, matvöruverslun, gjafavöruverslanir, bókasafn, listasafn, reiðhjólaleigu, hestaleigu og Golfvöll. Stutt er í góðar gönguleiðir eins og Heilsuhringinn sem liggur í gegnum sjálft tjaldsvæðið og Reykjadalurinn margrómaði.

Akureyri, Hamrar v/Kjarnaskóg

Eitt stærsta og glæsilegasta tjaldsvæði landsins í fögru umhverfi undir klettunum sunnan og ofan Akureyrar. Tjaldsvæðið er staðsett við útivistarsvæðið í Kjarnaskógi. Frábærar gönguleiðir í nágrenninu. Stutt í alla þjónustu á Akureyri. Ekið er framhjá flugvellinum og beygt upp eftir það upp fyrsta afleggjarann til hægri og ekið sem leið liggur út í gegnum Kjarnaskóg. Þegar komið er útúr skóginum aftur er ekið í smá spotta og beygt til vinstri upp fyrsta afleggjarann eftir Kjarnaskóg.

Blönduós

Tjaldsvæðið er nokkuð slétt og gróið þó að nýjasti hluti þess sé ekki vel gróin. Skjólgott er á efri hlutanum en neðri hlutinn (nær ánni) fer undir sumarbústaði.
Skemmtilegar hjólaleiðir eru frá Blönduósi eftir Maríu Ögn Guðmundsdóttir.

Básar á Goðalandi (Þórsmörk)

Tjaldsvæðið er allt í kring um skála Útivistar og hægt er að tjalda á flötum ellegar í lautum í skógi vöxnu landslaginu. Margar skemmtilegar hjólaleiðir eru í nágrenninu, bæði stuttar og lengri.

Þórsmörk - Slyppugil

Tjaldsvæðið Slyppugili er á grónu, rólegu svæði í Þórsmörk. Þaðan er frábært útsýni yfir á Eyjafjallajökul. Tjaldsvæðið einfalt og aðgengilegt fyrir náttúruunnendur með marga fjölmarga möguleika fyrir gönguferðir í nágrenninu.

Hellishólar, Fljótshlíð

Hellishólar eru í um 10 km fjarlægð frá Hvolsvelli. Þegar komið er að Hvolsvelli er ekið áfram að enda bæjarins en þar er skilti á vinstri hönd sem vísar að Fljótshlíð. Ekið er í ca 10 mín eftir þeim vegi að Hellishólum.
Stutt er í Tumastaðaskóg þar sem má finna skemmtilegar hjólaleiðir.

Tjaldsvæði Vestmannaeyja

Í Herjólfsdal er þjónustuskáli með salernum, sturtum, eldunaraðstöðu með borðkrók og þvottaaðstöðu. Einnig er þvotta- og salernisaðstaða fyrir neðan Fjósaklett og þvottaaðstaða úti.Gegn auka gjaldi er aðgengi að rafmagni, þvottavél og þurrkara. Þá eru einnig leiksvæði fyrir börn á svæðinu. Einnig er hægt að fara með hjólin í Herjólf og taka dagsferð í Vestmannaeyjum.

Ásbyrgi

Í Ásbyrgi er annað af tveimur tjaldsvæðum Vatnajökulsþjóðgarðs í Jökulsárgljúfrum, í Vesturdal er minna tjaldsvæði. Þjóðgarðurinn er opinn gestum allt árið um kring en tjaldsvæðið í Ásbyrgi er opið frá 1. apríl til 31. október.

Tungudalur, Ísafirði

Í Tungudal er aðaltjaldsvæði Ísfirðinga. Unnið hefur verið að uppbyggingu á allri aðstöðu og fegrun svæðisins. Staðurinn er frá náttúrunnar hendi afar hentugur, skjólsæll og fagur. Talsverður trjágróður er á tjaldsvæðinu.

Húsavík

Húsavík er elsta byggða ból á Íslandi því landkönnuðurinn Garðar Svavarsson hafði þar vetursetu fjórum árum áður en Ingólfur Arnarson settist að í Reykjavík. Fjöldi ferðamanna heimsækir bæinn á hverju ári. Vinsældirnar stafa af ríkulegri náttúrufegurð, vinalegu umhverfi, vinsælum hvalaskoðunarferðum út á Skjálfandaflóa og fjölbreyttri annarri afþreyingu auk nálægðar við fjölmargar náttúruperlur svæðisins. Bent er á vefsíðuna visithusavik.is og visit Husavik appið fyrir frekari upplýsingar.
Frábær hjólaleið er t.d. í kringum Botnsvatn.
Svo er 640mtb með braut í nágrenni Húsavíkur

Hólmavík

Tjaldsvæðið á Hólmavík er gott tjaldsvæði á besta stað í þorpinu við hlið sundlaugar (íþróttamiðstöðvar) og félagsheimilis. Örstutt í verslun og svo eru veitingahús og safn í þægilegu göngufæri ásamt skemmtilegum gönguleiðum með góðu útsýni. Þægilegar dagsferðir á bíl eru norður í Árneshrepp og yfir í Ísafjarðardjúp t.d í Kaldalón.Hjólaleiðir eru beint fyrir ofan bæinn, ekki langar en skemmtilegar.

Þakgil

Náttúruperlan Þakgil er staðsett á Höfðabrekkuafrétti milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands 15 km frá þjóðveginum. Eins og nafn gilsins bendir til er þar mikil veðursæld og stórbrotin náttúra.Gaman er að hjóla slóðann upp að jökli. Eða hjóla upp ýtuslóðann og svo niður gönguleiðina sem kemur niður nálægt Láguhvolum...
Í Þakgili er rafmagn en ekki er hægt að hlaða rafbíla þar, 10 tenglar í boði svo fyrstur kemur fyrstur fær. Svo er líka hægt að hringja á undan sér og kanna stöðuna.

Tjaldsvæðið Borgarfirði eystri

Tjaldsvæðið er við rætur Álfaborgar á Borgarfirði eystra, nálægt allri þjónustu og steinsnar frá Hafnarhólma. Svæðið skiptist upp í stórt þrískipt tún og tvö malarstæði. 40 rafmagnstenglar eru á svæðinu. Hinum megin við götuna má finna Álfacafé, rótgróið kaffihús í þorpinu. Svo er í fimm mínútna göngufjarlægð tvö veitingahús, verslun og ærslabelgur. Hægt er að fara í Frisbígolf á velli sem er inn af tjaldsvæðinu við Álfaborg. Einnig er eitt mest uppbyggða kerfi gönguleiða á landinu við þröskuld Borgarfjarðar eystra og hægt er að eyða mörgum dögum í að ganga um svæðið og eiga samt nóg eftir. Uppbygging á fjallahjólreiðaleiðum er einnig hafin og stendur nú þegar til boða að fara stunda fjallahjólreiðar á svæðinu.

Tjaldsvæðið Vík í Mýrdal

Tjaldsvæðið í Vík í Mýrdal er staðsett aðeins 1 km frá miðbænum og því öll þjónusta við hendina. Tjaldsvæðið tekur allt að 250 manns í tjöld, skála, bíla og hjólhýsi. Á tjaldstæðinu bjóðum við upp á flesta þá þjónustu sem ferðalangar þurfa, s.s. rafmagn, salerni, heitt og kalt rennandi vatn, sturtur og þráðlaust net. Einnig er gisting í smáhýsum í boði.
Tjaldstæðið í Vík í Mýrdal, þaðan er hægt að hjóla upp á Reynisfjall, krefjandi og skemmtileg leið. Hægt að fara niður hjá Reyniskirkju.Sést vel hér

Skaftafell

Þjóðgarðurinn í Skaftafelli var stofnaður 1967 en síðan 2008 hefur Skaftafell verið hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Í Skaftafelli er að finna margar og fjölbreyttar gönguleiðir við allra hæfi. Gífurlega fallegt landslag er allt í kring og stutt að fara að jöklum eða ganga á fjöll.
Hægt að hjóla inn í Bæjarstaðarskóg og margar aðrar fallegar leiðir í nágreninnu.

Þingvellir

Tjaldsvæðin á Leirum og við Vatnskot eru opin frá 01.06.-01.09. Við Nyrðri-Leirar er að finna rafmagn, salerni og sturtur. Við Syðri-Leirar eru salerni og sturtur ásamt losunarsvæði ferðaklósetta.
Fullt af skemmtilegum hjólaleiðum í Þingvallaþjóðgarði.

Tjaldsvæðið Sandgerði

Tjaldsvæðið er staðsett miðsvæðis og öll almenn þjónusta í göngufæri. Góð sundlaug með rennibraut og gufubaði, þreksalur, 18 holu gólfvöllur og þar er einnig að finna Þekkingasetur Suðurnesja – safn sem tengir saman menn og náttúru, sýninguna Heimskautin heilla og Gallerí Listatorg þar sem eru listasýningar og sala á handverksmunum. Mikið líf getur verið við höfnina og gaman að koma þangað. Í nágrenni við Sandgerði er að finna sögulega staði en þar má nefna Hvalsneskirkju, Stafnes og Básenda. Sandgerði er í 8 mín akstri frá fugvellinum og 35 mín frá Höfuðborgarsvæðinu. Einnig er hægt að leigja smáhýsi sem eru á svæðinu.

Kerlingarfjöll - Highland Base

Tjaldsvæði Highland Base í Kerlingarfjöllum er í dalnum Ásgarði - hlýlegur dalur í útjaðri stórbrotins landsvæðis sem býður upp á fjölbreytt útivistarsvæði með einstakri náttúru, hverasvæði og fallegu útsýni.

Ártún

Góð aðstaða, og nægt pláss er fyrir tjöld, fellihýsi, húsvagna og húsbíla. Góð hreinlætisaðstaða. Snyrtingar með sturtu, inniaðstaða fyrir fólk til að matast. Rafmagn. Seyrulosun er á staðnum. Möguleiki á þráðlausri internettengingu. Tjaldsvæðið er fjölskyldusvæði. Gestir yngri en 21 sé í fylgd með forráðamanni og viljum við biðja fólk um að virða næturkyrrð milli 24:00 - 08:00 að morgni.
Ártún þaðan er hægt að hjóla í gegnum Skuggabjargaskóg, út í Fjörður og Flateyjardal og fl. staði.

Húsafell

Tjaldsvæðið í Húsafellsskógi hefur notið mikilla vinsælda í áraraðir . Stæðin eru á miðju orlofssvæðinu og göngufæri í sund, golf, leiktæki, verslun og veitingar. Tjaldsvæðið er rétt við Hótel Húsafell.
Skammt þar frá er Hallmundarhraun og stutt þaðan á arnarvatnsheiðina. held að það væri gaman að fara þar upp eftir á rafmagnsfjallahjóli. Einnig hægt að fara upp Kaldadal og leika sér þar. Svo er Varmalandar tjaldsvæðið stutt frá og Grjóthálsinn þar með slóða sem gravelkeppnin Grefillinn fer um. Sá hryggur er stundum smá farartálmi á þeirri leið.

Hólaskjól

Gróið og fallegt svæði sem afmarkast af hraunkambi, ánni Syðri – Ófæru og bæjarlæknum okkar í Hólaskjóli.
Stutt í Eldgjá og inná fjallabak syðri og nyrðri leiðarnar. Ekkert rafmagn er á svæðinu en hægt að hlaða rafmagnshjólin í Hólaskjóli gegn gjaldi.

Geysir, Haukadal

Tjaldsvæðið við Geysi í Haukadal er staðsett í náttúruperlunni á Geysi, beint á móti Geysir Bistro og Geysir verslun. Á tjaldsvæðinu geta náttúruelskendur notið sín í rólegheitum á góðu fjölskyldu tjaldsvæði.

Ráð fyrir útilegur með rafhjólið:

  • Athugaðu hvort tjaldsvæðið býður upp á rafmagn til að hlaða hjólið
  • Taktu með öryggisbúnað og hleðslutæki
  • Kannaðu hjólaleiðir í nágrenninu áður en þú ferð
  • Athugaðu veðurspá og búðu þig undir breytilegt veður
  • Hafðu samband við tjaldsvæðið fyrirfram til að staðfesta aðstöðu